[ Valmynd ]

Hljóður hugsa ég heim

Birt 23. september 2008

Miklar og stórar fréttir eru það sem berast manni hingað yfir Altantshafið, daginn sem verið er að fylgja ungri ólafsfirskri konu til grafar, berast manni válegar fréttir utan úr heimi, af annari ungri konu frá Ólafsfirði. Já, lífið er ansi miskunnarlaust á stundum, situr maður hljóður yfir þessum sorglegu fréttum og skilur engan veginn hver tilgangur lífsins er, eins og þessar fjölskyldur hafi ekki hingað til fengið sinn skammt af sorginni.

María Bára Hilmarsdóttir hrifin brott eftir ströng og erfið veikindi, hrifin brott frá ungum dætrum og foreldrum. Hrafnhildur Lilja Georgsdóttir hrifin brott á mjög ótímabæran hátt í langþráðri könnun sinni á heiminum, hrifin brott frá foreldrum og ungum systrum.

Báðar þessar ungu konur áttu sinn þátt í að bæta það samfélag sem þær ólust upp í og hvar sem þær komu eftir það, ávallt brosmildar í góðu skapi, sem mikil og góð áhrif áttu á þá samferðarmenn sem þær umgengust. Ungar konur sem ávallt sáu það góða í heiminum og sáu einnig það góða í fólkinu sem þennan heim byggir. Er sárt til þess að hugsa að þessar ungu konur fái ekki notið þess sem heimurinn og fólkið sem hann byggir hefði getað boðið þeim næstu ókomnu árin.

Hugur minn er og víkur ekki frá fjölskyldum þessara ungu og geðugu ólafsfirsku stúlkna, vil ég biðja alla góða vætti að vernda þau og styðja í þeirra miklu sorg sem nú hefur verið að þeim kveðin. Sendi mínar innilegustu samúðarkveðjur til allra ástvina þeirra.

Flokkun: Daglegt líf....

Lokað fyrir ummæli.