[ Valmynd ]

Skólinn

Birt 14. september 2008

Ég var víst búinn að lofa fólki að vita eitthvað um skólann og þá kúrsa sem við erum í hérna úti. Skólinn heitir Arkitektur- og designhøgskolen i Oslo og ef þið viljið vita eitthvað meira um hann er slóðin þessi; http://www.aho.no/Nei, nei ég skal ekki vera svona leiðinlegur!!! Nú skólinn er staðsettur að Maridalsveijen 29 í Osló, byggingin er gamalt ljósaverkstæði og þar var víst einhvern tímann slökkvistöð, húsið var gert upp árið 2001 að mig minnir og er sniðugt að sjá hvernig það tókst til. Húsinu er leyft að vera mjög hrátt að innan og gefur það skemmtilegan svip á þessa gömlu byggingu, ekki er verið að fárast yfir einhverjum raka í veggjum og mynda þessar rakaskemmdir oft á tíðum skemmtilegan kúltur.Vil ég eindregið mæla með myndum sem eru af skólabyggingunni á heimasíðu skólans. Þar sést líka skemmtilegt torg sem byggingin myndar og er þakið grasi, þetta græna svæði lífgar mikið upp á þessa skemmtilegu stein og glerbyggingu.Mjög góður aðbúnaður er í skólanum, góð tölvuherbergi með flestum forritum, góðum plotterum og prenturum og einn víst alveg svakalegur 3d-prentari. (Ég vil ekki prófa hann fyrr en fer að líða að lokum veru minnar við þennan skóla, því engin veit hvað getur gerst ef ég fer að ræsa gripinn!!!).Erum við Landslagsarkitektarnemarnir með okkar sérborð í stúdío þar upp á loftinu og er það hin fínasta aðstaða, já þar er hver og einn með sitt ljósaborð, sniðugt!!!Í haust erum við Helgi í tveimur kúrsum; Landslagsgreiningu og er sá kúrs 12 einingar (24 ects) og í áfanga sem er um ferðasvæði og túrista, sá kúrs er allmiklu minni eða bara 3 einingar (6 ects).Í litla kúrsinum erum við nemendur úr landslagsarkitektahópnum og nemendur í skipulagsfræðum saman, en í stóra kúrsinum erum við ein með landslagsgreininguna, en hópur úr arkitektanáminu og hópur úr skipulagsfræðunum eru með önnur verkefni, en sama svæði.Erum við þess vegna mikið saman í vettfangsferðum og fyrirlestrum og er það bara fínt og líka spennandi.Kennararinir okkar eru alveg fínasta fólk, erum við með 3 aðalkennara og síðan er búinn að vera alveg haugur af gestafyrirlesurum, kennararnir okkar eru arkitektinn Julian Lynghjem og landslagsarkitektinn Alf Haukeland, þeir eru með þennan stærri kúrs sem nefnist  “The Oslo Landscape”. Um minni kúrsinn sér frú að nafni Hettie Pisters sem er stundakennari við skólann en er jafnframt professor í landslagsarkitektur og rekur fyrirtæki í bransanum.Allir þessir kennarar eru bara afskaplega fínir og taka okkur Helga mjög vel og sjá til þess að við förum ekki úr tíma gjörsamlega út á þekju, þá sérstaklega frúin hún Hettie, því henni finnst ekkert verra að hafa fyrirlestranna á norsku, já þá erum við kannski aðeins pínulítið út á þekju!!!Þau verkefni sem við höfum leyst hingað til snúa öll að landslagsgreiningu í Groruddal hérna austan við miðborg Oslóar, er þetta svæði sem fór mest að byggjast eftir seinni heimstyrjöldina. Erum við núna búinn að skila 6 verkefnum og halda 4 kynningar, er það þetta venjulega, gróður, vatnafar, jarðfræðin, sagan, veðurfar og þannig mætti lengi telja.Fengum við afhent verkefni núna í síðustu viku í litla kúrsinum hjá Hettie, já þá þurfum við að fara í örlítið ferðalag, þurfum við þá að fjalla um og lausn á áningastöðum ferðamanna við þjóðveginn milli Hönefoss og Haugastöl, já, já þetta er ekki nema 4 tíma keyrsla frá Osló, fínt fyrir okkur Helga sem erum fótgangandi hér í Oslo. En auðvitað reddast þetta allt saman einhvern veginn!!!Í stóra kúrsinum þurfum við líka að fara í ferðalag og hefst það núna 2.október, er þá ferðinni heitið til Rhamser í Þýskalandi. Þá gerumst við Helgi bakpokaferðalangar og fljúgum til Frankfurt eða Dusseldorf, er búið að stytta ferðina úr 5 virkum dögum niður í föstudag, laugardag og sunnudag.Þannig að þetta er bara allt saman ljómandi fínt, fleiri fréttir af skólanum síðar! 

 

Flokkun: Skólinn.

Lokað fyrir ummæli.

2 ummæli

 1. Ummæli eftir Helgi Einarsson:

  Erum við ekki að fara til Emscher, sem er við Dusseldorf í vestur Þýskalandi? Já og ef einhverjum líður betur þá heitir litli kúrsinn Introduction to Landscape Urbanism. Annars er þetta voða fínn pistill hjá þér, gott að hann er til þá þarf ég ekki að sleikja þetta saman, haha.

  14. september 2008 kl. 18.10
 2. Ummæli eftir Aldís:

  Spennó….
  Bakkabræður í langferð við bíðum spennt eftir framvindunni.

  Námið hljómar spennandi en voða mikil vinna eitthvað…..

  Hvernig er það er ekki skyldumæting hjá ykkur? Viðvera í stúdíoi og svona???

  15. september 2008 kl. 10.54