[ Valmynd ]

15.ágúst

Birt 6. september 2008

Jæja þá var komið að stóra deginum, ferðin til Osló!!! Mætti í Keflavík rétt um 6-leytið, alveg viss um að ég hefði gleymt helmingnum af dótinu mínu, því mjög naumur tími var til að pakka niður kvöldinu áður. Það var búið að vera svo brjálað að gera í húsframkvæmdum að ekki var mikill tími til að huga að þessari Noregsferð og Noregsdvöl, var meiri segja ekki alveg viss um nóttina er ég vaknaði að ég væri að fara af stað í þessa námsdvöl. Að sjálfsögðu kom það síðar í ljós að ég hafði gleymt hinu og þessu!!!

Er ég var rétt kominn upp í Fríhöfnina var tilkynnt um 3.tíma seinkun á flugi til Osló, auðvitað… það gat ekki öðruvísi verið víst ég var á ferðinni!!!

Er ég kom upp hitti ég Helga samferðarmann og samnemanda hér í Osló, það var mikill munur að hafa aðstoð við að láta sér leiðast í bið eftir flugi. Vorum við með miklar vangaveltur um hvernig færi með næturgistingu hjá okkur þann daginn og næstu daga, því námsmennirnir voru svo brattir að fara í nám til Osló án þess að vera komnir með húsnæði. En eins og Íslendinga er siður vorum við vissir um það eitt, að þetta myndi reddast.

Svo kom nú að því að vélin færi af stað frá byggingunni í Keflavík…alltaf gaman að fljúga, en verið nokkuð flughræddur síðan að Haraldur bróðir minn útskrifaðist sem flugvirki… Í hvert sinn er ég sest upp í svona vél er mér hugsað til bílaviðgerða hans á unglingsárum okkar… en þá notaðist hann helst við varahluti úr bandspottum og garðslöngum…þess vegna vona ég alltaf innilega að honum hafi ekki tekist að innleiða þær vinnuhefðir í flugviðgerðum.

Vélinni tókst að komast til Osló… þó mér fyndist þeir nú ekki fara alveg rétta leið í byrjun… var nú að spá í að fara fram í til þeirra og benda þeim á að Osló væri alls ekki í norðurátt… ég ætti að lenda þar, en ekki í Finnmörku!!!

Jæja en eftir mikla bið í flugstöðinni og nokkurn tíma í vélinni kom að þeim atburði sem ég var farinn að bíða eftir mjög spenntur, en það var að fá eitthvað að borða…var nú farið að bera fram matinn, jæja þetta var nú aldeilis fínt… FÍNT, NEI ÞAÐ VAR EKKERT FÍNT, ANNAÐ EINS DJÖ…SULL HEF ÉG BARA VARLA SÉÐ FYRR. Ég fór að líta í kringum og athuga hvort einhver dýr væru með í för og þetta væri misskilningur allt saman, þessi matur væri fyrir dýrin og svo fengjum við okkar mat stuttu síðar. Nei aldeilis ekki, þetta var ætlað okkur fólkinu um borð, en brauðið var ágætt, smjörið og kaffið.

Er vélin fór að nálgast Gardenmoen-flugvöllinn var mér mikið hugsað til flugatviks sem gerðist fyrir nokkrum árum fyrir Flugleiðavél á þessum velli…vék sú hugsun ekki úr huga mér fyrr en ég fann að hjólin snertu flugbrautina, en þá var eftir að hægja niður áður en vélin færi út af hinu megin… en svei mér þá, þetta hafðist allt saman og fyrr en varði stóð litli sveitadrengurinn í flugstöðinni á Gardenmoen og alveg heill á húfi. Já kraftaverkin gerast enn!!!

Var ég nú alveg viss um að töskurnar mínar væru staddar einhversstaðar á öðrum flugvelli í Evrópu, var ég farinn að ókyrrast mjög er ég varð að vera einn eftir við færibandið og sá fyrir mér töskurnar mínar fara hring eftir hring á færibandi á Kastrup eða Sciphol. Jæja birtust þá ekki þessar elskur, sem í raun voru einu “fasteignir” mínar í framandi landi!!!

Er við Helgi komum í gegn fórum við að leita að Kidda sem ætlaði að vera svo góður að sækja okkur á völlinn og leiða okkur félaganna fyrstu skrefin í stórborginni…en hvar var Kiddi??? enginn Kiddi…hafði Kiddi þá gleymt okkur eftir allt saman…úff…stóðum við sveittir í anddyrinu með tárin í augunum og hugsuðum hvernig sveitadrengirnir frá Íslandi kæmust af umkomulausir út í hinum stóra heimi!!!

Skjálfandi hringdi ég í Kidda…ekkert svar!!!…hvað var í gangi??? Jæja að lokum svaraði félaginn og hafði hann þá lent í mikilli umferðarteppu, því vegna tafa á fluginu lentum við á háannatíma í Oslóar-umferðinni. Mikill léttir var að sjá Kidda og setjast upp í bílinn hjá honum…að vísu rifjaðist upp fyrir mér fyrstu dagar hans með ökuskírteinið á yngri árum… þá var hann nokkuð fyrir að úrelda bíla á snöggan og auðveldan hátt!!! Var ég samt nokkuð viss um að þeir dagar hans væru að baki… leist samt ekki alveg á blikuna er ég sá nálina á hraðamælinum nálgast töluna 140 og Kiddi bendandi og veifandi út um allar áttir að sýna okkur landslagið í Noregi.

Nú fóru í hönd tímar húsnæðisöflunnar sveitastrákanna…vorum við farnir að kíkja út undan okkur að sæmilegum ruslagámum og kynna okkur menningu útigangsfólks til að vera við öllu búnir…nei,nei, en ekki var ástandið gott á þessu augnabliki, ég reyndar kominn með húsnæði frá og með 2.september…en það voru nú alveg 19 dagar í það og að öllu eðlilegu 19 svefnnætur.

Ekki dróst orð upp úr Helga og tel ég hann hafa litið ástandið alvarlegri augum en ég sjálfur, þó töluverður óróleiki væri í mér og mínum taugum. En að sjálfsögðu var Kristinn Ólafsson búinn að skanna ástandið, koma í kring þessu húsnæði fyrir mig frá og með 2.september og panta viðtal og skoðun á íbúð fyrir Helga. Var nú farið að leita að þeirri götu sem þessi íbúð átti að vera staðsett, var Kiddi búinn að keyra svo marga hringi um þetta hverfi á fleygiferð að Osló virkaði fyrir sveitastrákanna tíu sinnum stærri en hún er í raun og veru. Jæja fannst þá gatan og nafnið lyfti aðeins á okkur brúninni!!! Fredriks-GLADE gate… fórum við inn að hafa tal á kalli…birtist okkur þar hress og skemmtilegur rúmlega sextugur kall. Var hann tilbúinn að leigja Helga íbúðina frá og með þeim degi og var nú farið að hylla í að við hefðum fastan næturstað, eitthvað stóð leiguverðið í okkur og stóð það mjög fast í Helga…það stóð svo fast í honum að hann kom ekki upp orði í marga tíma…kom þó að losnaði um málbeinið á honum og gat hann stunið upp úr sér;”jú, ætli ég taki hana ekki”.

Kristinn Ólafsson bauð okkur í mat heim til sín í Lilleström sem er rúmlega 20 km fyrir utan Osló, þar eldaði hann dýrindis núðlurétt…alveg snilldarréttur, þó ég sé yfirleitt meira fyrir mat!!! þarna sátum við með Kidda og fjölskyldu fram á kvöld í stóru og flottu húsi þeirra. Voru nú ferðalangarnir frá Íslandi orðnir nokkuð framlágir eftir vökur og stress í á annan sólarhring, skutlaði Kiddi okkur aftur inn í Osló að framtíðarheimili okkar Helga næstu daganna.

Flokkun: Daglegt líf....

Lokað fyrir ummæli.

Ein ummæli

  1. Ummæli eftir Ester Harpa:

    hahaha það munaði ekki um það hvað sumir eru alltaf svartsýnir á allt:) en auðvita “reddast allt” það hefur bara sýnt sig og sannað í gegn um tíðina:) flott færsla hjá þér gamli:) gaman að fylgjast svona með þér, haltu svo bara áfram að vera duglegur að blogga:) smá þolinmæði þá kemur þetta múhaha:) sakna þín og elska

    7. september 2008 kl. 23.06