[ Valmynd ]

Þá er það búið…

15. desember 2008

Jæja það tekur víst allt enda …líka þessi haustönn þó ég væri farinn að hallast að því að hún tæki ekki enda. Skiluðum stóra verkefninu okkar í dag …víst sjaldan sést annað eins verkefni í þessum skóla!!! Nei ég veit ekkert um það, en við félagarnir ásamt fleiri nemendum af þessari braut fengum að vita það á sérstökum fundi eftir kynninguna að við hefðum náð þessari önn með glans og erum við afskaplega sælir með það.

Erum núna að gera hreint fyrir okkar dyrum!!! Eftir að kynningu lauk í skólanum núna undir kvöld hefur okkar tími farið í að þrífa íbúðir okkar …það er allt að hafast …en ekki nema fjórir tímar í ferðalag okkar út á flugvöll. Þar sem Helgi hefur gaman að flugferðum …var ákveðið að fljúga fyrst í suður áður en við fljúgum í norður!!! Nú ætlum við að reyna á þjónustulund Norwegian til Kaupmannhafnar og Iceland Express frá Köben og yfir Atlantshafið til Keflavíkur. Þar lendum við kl.14.35 og þrátt fyrir allt er öll móttökuathöfn afþökkuð!!!

Hafið það gott þangað til næst, veit ekki hvenær verður næst eða hvort það verður eitthvað næst. Þakka öllum þeim sem nent hafa að fylgjast með þessu bulli mínu.

Gleðilega hátíð og góðar stundir.

Ummæli (2) - Daglegt líf...

bráðum “búið”…

10. desember 2008

Það er ekki svo að hér sé ekkert um að vera og ekkert að frétta. Nei hér er svo mikið að gera og svo mikið um að vera, að enginn tími er til að setja saman pistil.

Þó sá verknaður taki ekki langan tíma er erfitt að setja sig í stellingar og fara að “pikka” orð niður á blað, er maður er að niðurlotum kominn eftir langan og strangan dag við lærdóminn!!!

Er ég búinn að hafa miklar áhyggjur af þessu bloggi undanfarið …búið að vera hálf-munaðarlaust og líður að því að það verði alveg munaðarlaust. Nú fer að líða að lokum skólavistar hér í Osló, telur maður nú niður þá sex daga sem eftir eru af þessari haustönn.  Gæti verið að einum pistli yrði hent hér inn í lokin, ef tími vinnst til. 

Dagar okkar Helga eru þrungnir mikilli tilbreytingu þessa daganna …erum við annað hvort í skólanum, eða hér heima hjá mér að vinna verkefnið okkar. Sem reyndar kemur örugglega til með að verða tímamóta verkefni við þenna skóla okkar …nei kannski ekki alveg. Erum búnir að vera að vinna að þessu verkefni nokkuð lengi …eða í allt haust, fyrst með ýmsum greiningum, síðan senario og ýmsum strategy-um. Ekki hefði okkur órað fyrir því er við fórum okkar fyrsta göngutúr um þennan dal núna í haust að útkoman á þessu verkefni yrði eins og það er að verða. En svona gerist, er búið er að vinna úr öllum greiningum, hanna hin ýmsu svæði og enda síðan á að endurhanna svæði sem hvorugur okkar leit til í greiningu eða forhönnun. Gaman að því hvert greining og forhönnun getur leitt námsfúsa og óþreytandi nemendur …eða þannig!!! 

En nú er allt að gerast og erum við búnir að fá tíma á “plotterinn” í skólanum milli klukkan 03.00 og 05.00 aðfararnótt sunnudagsins!!! Nú eru víst allir að prenta út og verðum við bara að bíða í röðinni …held að allir pöbbar loki klukkan 01.00 …þannig að við verðum að finna okkur eitthvað til dundurs þessa tvo tíma!!! 

Er þetta búið að ganga að mestu leyti áfallalaust hjá okkur fyrir utan nokkur atriði …ég á það til að gleyma að vista þau verkefni sem ég er að vinna …frekar leiðinlegt að gera þetta aftur og aftur, en þá nær maður að sníða af flesta vankanta sem voru á fyrri teikningum!!! Helgi var að vinna í að gera skortstöðu í íslensku krónunni …gékk ekki alveg miðað við síðustu daga, en eitthvað seig gengið til baka í dag og vonandi bjartari dagar hjá Helga. Er ég ekki mjög sáttur við að gengið sé á réttri leið eins og talað er um …við námsmenn búin að lifa erlendis á rándýrri íslenskri krónu í allt haust …er fer að nálgast útborgunardag hjá LÍN vill svo einkennilega til að íslenska krónan fer í sitt fyrra horf. Hef grun um að halda eigi þessu svona til að koma í veg fyrir að LÍN verði fyrir tjóni í sínum útborgunum …betra að námsmenn taki þetta á sig að mati ráðamanna!!! 

Hafa götur hér í Osló verið nokkuð hálar undanfarna daga …búið að bæta úr því í dag með grjótburði!!! ekki sandburði …því kornastærðin á þessari hálkuvörn er í þeirri stærð að ef einhver fengi eitt korn í hausinn …myndi sá sami, steinrotast!!!Ekki var búið að hálkuverja í gærmorgun er Helgi kom til mín …munaði engu að hann hefði flogið á hausinn í brekku er liggur hér niður að blokkinni hjá mér. Einhverjum tímum síðar þurfti ég að hendast út í búð …mæti ég ekki konu á háhæluðum skóm …og talandi í farsímann sinn!!!. Já, já hvernig skyldi henni ganga þarna niður víst Helgi var nærri dottinn á sínum fjallaskóm …hélt ég áfram göngu minni og horfði til baka að fylgjast með æfingum konunnar. Rann hún af stað …náði einhvern vegin að halda sér á fótunum …en allt í einu …fór ég heljarstökk og vissi ekki fyrr en ég lá á bakinu efst í brekkunni!!! Var ég svo mikið að fylgjast með konunni að ég tók ekki eftir blómakari sem var staðsett þarna á miðri gönguleið minni …stórhættulegt að skilja þessi blómaker eftir á víðavangi.

Ummæli (3) - Daglegt líf...

TIL HAMINGJU ÍSLAND …

2. desember 2008

Til hamingju allir Íslendingar með afmælið í gær, skrýtið finnst mér hversu lítið var gert úr og virðist vera lítið gert úr á okkar tímum, þessum mikla og langþráða degi allra þá lifandi Íslendinga. 

Í margar aldir dreymdi Íslendinga um fullvalda og sjálfstæða þjóð, hart var fyrir því barist og í gær á níutíu ára afmæli fullveldisins var varla minnst á að þessi atburður hefði átt sér stað. Ætli fólk …eða þá frekar fjölmiðlar trúi því þá ekki lengur í öllum þessum hremmingum að við séum enn fullvalda og sjálfstæð þjóð???????? 

Nei, fjölmiðlar mjög svo uppteknir af því neikvæða sem gerist í landinu að engin tími er til að minnast tímamóta. Sem á þeim tíma lyfti þjóðarsálinni stall hærra og rúmlega það, ekki aðeins að Íslendingar fengju þá að annast sín fjármál og utanríkismál sjálfir. Heldur höfðu þessi tímamót mikil áhrif á fólkið sjálft í landinu, með aukinni trú á sjálft sig, fjölskyldu, atvinnu og landið sitt sem þá, á erfiðum tímum hleypti þessu fólki kapp í kinn og allir börðu sér á brjóst, HAGSÆLD, ÍSLANDI TIL HANDA.

En hvað gerðist í gær, jú þeir fáu Íslendingar sem komust til að fagna þessum tímamótum komu saman á Arnarhóli, til mótmælafundar, kannski hefur einhversstaðar verið minnst á afmæli fullveldis okkar, veit það ekki, reyndi að hlusta eftir því en heyrði ekkert slíkt. 

Þar sem allsstaðar er talað um það í fjölmiðlum að fyrirtæki séu ofmönnuð og verið sé að minnka vinnuskyldu fólks til að koma í veg fyrir uppsagnir, hefði ekki verið upplagt tækifæri í gær. Loka fyrirtækjum sem ekki eru að þjóna almannahag landsbúa, minnka þannig vinnuskyldu um átta tíma þennan mánuðinn og stofna til almenns afmælis-og þjóðardags.  

Þar hefðu þeir skemmtikraftar sem hafa viljað miðlað þjóðrækni sinni til almennings, þeir ræðumenn sem sjá svarta-og bjarta tíma framundan geta komið saman, miðlað túlkun sinni og hugsjónum fyrir steinilostinni þjóð. 

Gærdagurinn var kjörinn vettfangur fyrir okkur Íslendinga að sýna alþjóð samstöðu okkar í orði og verki, sýna alþjóð að við erum aðeins einstaklingar sem öll berum okkar byrðar, en stöndum saman sem ein heild er gefur á bátinn. 

Til að gera þennan dag að; ekki bara þjóðbaráttudagi, heldur einnig samstöðu degi íslenskrar þjóðar, hefður verkalýðs-og stéttarfélög átt að taka frumkvæðið. Því það voru þau sem seldu þennan frídag íslenskrar alþýðu til atvinnurekenda fyrir einhverjar krónur, sem nú eru löngu tapaðar. 

Ég reyni að lesa þau íslensku blöð sem ég kemst yfir, renni ég þá helst yfir dálkanna; TAPAÐ – FUNDIÐ, til að athuga hvort ekki sé örugglega búið að lýsa eftir Verkalýðs-og Stéttarfélögum sem alþýða hefur greitt í og er þeirra eign.  

MUNIÐ 1.DESEMBER 1918.

Ummæli (1) - Daglegt líf...

KLAKAHÖLLINN

27. nóvember 2008

Er alltaf að komast að því betur og betur hvað við Íslendingar höfum það gott …við eigum hitaveitu og upphituð hús. Hér í íbúðinni er yfirleitt sama hitastig inni og úti þó mér finnist á köflum vera ívið hlýrra úti. Nei, þetta eru nú ýkjur en mikið andsk… getur verið kalt hérna inni …ekki alveg að skilja hvernig húshitunarmálum er háttað hérna.

Bý hér í nýrri íbúð með tveimur rafmagnsofnum sem gera að mér finnst lítið gagn …en það skrýtna er að inn á baðherberginu er gólfhiti!!! Já, gólfhiti inn á baðherbergi og hvergi annarsstaðar …nauðsynlegt að hafa hita á baðherbergisgólfinu …en hvers vegna í ósköpunum er þá ekki hægt að hafa gólfhita á öðrum hlutum íbúðarinnar??? Ekki alveg að skilja þetta, kaldasta herbergið í húsinu er svefnherbergið …finnst mér ekki þægilegt að hafa of heitt í svefnherbergi, þó það geti nú gerst í hita leiksins …en að hafa næstum frost þar inni finnst mér fráleitur kostur. Hefur verið svo kalt inn í svefnherberginu að tekið hefur marga tíma fyrir mig að ná aftur venjulegum líkamshita og þar afleiðandi oft verið lítið um svefn.

Datt mér í huga alveg snilldarráð eina nóttina …víst alltaf væri svona heitt inn á baðherbergi, væri besti kostur í stöðunni að fara inn á WC með dýnu og leggjast þar á gólfið!!! Fór nú í hönd nokkur undibúningstími við að græja dýnu og rúmföt inn á WC …alveg að drepast úr kulda …bar þetta allt inn á blessað WC blár í framan og ákveðinn líkamspartur orðinn að holu!!! Henti dýnunni á gólfið og hvað …nei, nei var þá ekki Vignir litli allt í einu orðinn svo stór að hann rúmaðist ekki á fína baðherbergisgólfinu!!! Þar var þessi tilraun úr sögunni og fór restinn af nóttinni í að ná aftur upp réttum líkamshita …sem gerðist ekki fyrr en rétt fyrir sjö er “vinir mínir” iðnaðarmennirnir í næstu blokk mættu til vinnu.

Djö… ands… var ég mikið að vandræðast, víst fyrri lausn væri úti, hvað í ósköpunum ég gæti gert …fór mikill tími í að hugsa réttu lausnina …en á endanum fann ég hana!!! Í svona málum verður maður að nota réttu tólin … og réttu græjurnar …mundi ég allt í einu eftir hárblásaranum sem ég fann hérna fyrst í haust, er hann búinn að standa aðgerðarlaus upp í skáp og fannst mér tími til kominn að hann fengi atvinnu og hlutverk á þessu heimili!!!

Breiði ég nú tvær sængur ofan á rúmið …sting hárblásaranum undir sængurnar …að sjálfsögðu á mesta snúning …fer inn á heitt baðherbergið …nýt þess að klæða mig úr í þessum mikla hita. Set sturtuna á tæplega 60° hita, slaka á í heitri sturtunni á meðan hárblásarinn vinnur sína vinnu …þurrka mér í rólegheitum …klæði mig svo í brókina …opna WC hurðina í rólegheitunum. Dreg djúpt andann …þrisvar sinnum …set síðan undir mig hausinn og hleyp af stað inn í svefnherbergi, hendi blásaranum í burtu og dreg sængurnar upp að höku.

Þetta hefur virkað ansi vel …nema á leið minni eru 2 beygjur og hef ég átt í basli með aðra þeirra!!! Það sem verra er að það er beygjan þar sem eldhúsinnréttingin byrjar …hef ég tvisvar lent í tjóni er ég náði ekki beygjunni …en það er ekki verstu slysin. Versta slysið varð er ég gleymdi að henda hárblásaranum undan sænginni og lagðist á hann …brenndi mig ansi harkalega …en er núna allur að skána á rassinum!!! 

Ummæli (6) - Daglegt líf...

Tveir góðir …en ekki vinir!

Er búinn að hafa miklar áhyggjur af tveimur mönnum …annar er betlarinn sem situr alltaf við brúnna sem liggur að skólanum. Hinn er Helgi Einarsson! …já, ég er búinn að hafa miklar áhyggjur af þeim framan af hausti, betlarinn bíður og bíður eftir að fá einhverja aura … en við íslensku námsmennirnir með stáltaugarnar og …mjög tóma vasa af einhverju sem líkist járntegnund í vösum …röltum fram hjá og látum sem þetta láti ekkert á okkur fá. 

Samt hef ég fundið til samkenndar með manninum …sennilega er ég bara meiri aumingi en hann að grípa ekki tóma dollu og sitja á annarri brú!!! Jæja, aumingja maðurinn, þar situr hann á hvaða tíma sem er …hvort sem við mætum í skólann kl. Sjöhundruð eða bara þrettánhundruð …eða förum heim úr skólanum kl. Sautjánhundruð eða bara í stóru tölunum yfir tvö þúsund. Situr ekki þetta grey, alltaf á vaktinni.

Ég er nú búinn að vorkenna Helga Einarssyni í allt haust, í rándýrri leigu hér út í Osló, nýbúinn að kaupa fasteign á Dalvík. Lenda síðan í útistöðum við okkar góða og liðlega flugfélag sem búið er að þjóna okkur eyjaskeggjum á Íslandi alveg síðan 1935, ég veit að Helgi hefði ekki svona mikla þolinmæði í svo langan rekstur. Eru nú málin búinn að þróast þannig að hann fær ekki að ferðast með okkar yndislega og þjónustulipra flugfélagi, Icelandair.

Verður hann nú að taka á sig krók til Kaupmannahafnar með Norwegian frá Osló og síðan í þessum þröngu vélum Iceland-Express frá Köben og heim, allt vegna bréfs sem þessi saklausi drengur sendi á alla fjölmiðla á Íslandi vegna ofurkjara sem við námsmenn búum við. En hvað er að því að við námsmenn styðjum fornt og sögufrægt íslenskt fyrirtæki sem skilaði ekki nema 6,7 milljörðum í hagnað á fyrstu átta mánuðum þessa árs, …æ, en það er svo gott að vera þátttakandi í einhverju sem gengur vel, þó maður hafi ekki efni á því.

Þeir eru líka svo almennilegir við starfsfólkið hjá Icelandair…hættir að gefa að borða um borð! Það er best að hver borgi sína samloku … og þessar elskur hafa ekki tíma til að fara eftir allri vélinni vegna myntskiptinga. Margur farþeginn kom hungraður frá borði en sem betur fer ekki Helgi Einarsson.

Ekki batna dagarnir hjá námsmanninum Helga Einarssyni …nei, nei í dag var komið að skuldadögum húsaleigunnar … ekki hafði tekist að millifæra frá Íslandi og hingað til Noregs. Þannig að námsmaðurinn Helgi Einarsson hefur núna síðastliðna þrjá daga þeyst á milli hraðbanka að ná út seðlum í þessum hraðbönkum. Kom loks að því að Helgi var kominn með seðla fyrir allri húsaleigunni og setti þá í umslag fyrir íbúðareigandann …en, hvað???

Skilaboð frá íbúðareigandanum!!! … er í heimsreisu ertu til í að leggja þetta inn á banka reikninginn minn??? Já, já þessi maður hafði örugglega aldrei stigið fæti á erlenda grundu …en nú var það mögulegt, jú, hann var að leigja íslenskum námsmanni íbúðina sína og …hvað …já, já bara í heimsreisu …gerist ekki betra en að taka öll lönd í einu á kostnað fátæks námsmanns frá Dalvík hér í Osló!!!

Þurfti Helgi þá að leita að banka til að millifæra á “heimsreisuprinsinn” … var “heimsreisuprinsinn” staddur í Japan og gaf honum upp bankanúmerið sitt. Fór Helgi nú að leita að banka, eitthvað sem við erum búnir að gera í allt haust en lítið fundið. Rölti Helgi um bæinn þveran og endilangan …finnur loksins banka …ryðst inn í banka …tekur fram …eyðublað …sem hann fyllir út með allri talnarununni sem “heimsprinsinn” lét honum í té. Klárar að fylla þetta út eftir langan tíma …já, nei, guð minn góður þvílík röð …fór Helgi í röðina og beið og beið …jæja, kom þá ekki röðin að félaga Helga, gjaldkerinn lítur á bankanúmerið á eyðublaðinu … 

“nei, því miður …þú ert ekki í réttum banka”!!!  

Bomm …bomm …bomm …  “ER ÉG EKKI Í RÉTTUM BANKA, HVAÐA HEL…….  VITLEYSA ER ÞETTA”???

“HVAR ER SÁ RÉTTI DJÖ…..

“Hann er ekki á þessu svæði …en vertu alltaf velkominn aftur vinur” svaraði ljúf og fögur rödd.    

Þá rumdi í íslenska manninum sem ruddist út úr banka “NEI, ÉG KEM ALDREI HINGAÐ AFTUR”!!!

En áfram sat betlarinn á brúnni í sínum rólegheitum …meiri segja farinn að hafa það svo gott …að í dag gat hann fengið mann til að leysa sig af!!!

Ummæli (3) - Daglegt líf...